Fara í efni

Garðasel kynnir innleiðingu YAP (Young athlete project)

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili starfs Special Olympics á Íslandi (SOI) www.specialolympics.org.   Samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni árið 1968. Í dag eru iðkendur innan SOI um 5 milljónir og þekktasta verkefnið eru heimsleikar Special Olympics sem haldnir eru fjórða hvert ár. Næstu leikar verða í Abu Dhabi og Dubai árið 2019 en í þar verður í knattspyrnuliði Islands, Skagamaðurinn Andri Jónsson, íþróttafélaginu Þjóti. Nýjasta verkefni SOI er innleiðing á alþjóðaverkefninu  YAP – Young Athlete Project. Markmið YAP er að stuðla að því að öll börn fái næga hreyfiþjálfun en sérstök áhersla er á börn með sérþarfir/frávik. Special Olympics á Íslandi hefur vakið athygli á þessu verkefni m.a. með því að heimsækja leikskóla og standa að YAP kynningardegi í nokkrum sveitarfélögum. Snemmtæk íhlutun er gífurlega mikilvæg, ekki síst hvað varðar hreyfiþjálfun, það hafa rannsóknir sýnt, jafnt erlendis sem á Íslandi. Heilsuleikskólinn Skógarás Ásbrú hefur starfað með Special Olympics á Íslandi að innleiðingu YAP frá árinu 2015. Þar var gerð rannsókn árið 2017 sem sýndi mjög jákvæð áhrif YAP verkefnisins, ekki aðeins á hreyfiþroska heldur einnig aðra þætti s.s. málþroska og félagsfærni. YAP verkefnið var kynnt á Akranesi árið 2017 og þann 8. nóvember 2018 var haldinn opinn kynningardagur YAP í íþróttamiðstöðinni á Akranesi. Þar mættu fulltrúar leikskóla, ásamt fulltrúum grunnskóla en markmið með YAP er ekki síst að stuðla að áframhaldandi hreyfiþjálfun í íþróttastarfi,  á fyrstu árum grunnskóla. Ingunn Ríkharðsdóttir, leikskólastjóri heilsuleikskólans Garðasels, var skipuleggjandi kynningardagsins í samstarfi við ÍF. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttafræðingur á leikskólanum Skógarási Ásbrú kynntu YAP verkefnið  og að því loknu var kynning á innleiðingarferli YAP sem farið hefur fram í Garðaseli. Ingunn Ríkharðsdóttir leikskólastjóri kynnti til leiks, Breka Berg Guðmundsson, íþróttafræðing sem starfað hefur að innleiðingu YAP með starfsfólki. Þar er nú boðið upp á YAP hreyfiþjálfun á hverjum morgni n.k. aukahreyfitími fyrir valinn hóp barna. Áhersla er lögð á að YAP verkefnið er fyrir öll  börn þó horft sé sérstaklega á börn með sérþarfir / frávik. Einfalt hreyfipróf er lagt fyrir þau börn sem talið er að þurfi að fylgjast betur með og í kjölfarið er sett upp 8 vikna prógramm með markvissum æfingum og prófun gerð aftur í lok tímabils. Allt efni er ókeypis og  til staðar á heimasíðu SOI.  Gert er ráð fyrir að öll aðildarlönd SOI, hvar sem er í heiminum, geti nýtt námsefni og kennslumyndbönd YAP. Íslenskur YAP bæklingur, „Leikjabankinn“ var lokaverkefni í  HÍ  2018 og kynningarmyndband YAP var lokaverkefni í HÍ 2016.  Á Íslandi hefur verið lögð  áhersla á að íþróttafræðingur eða fagaðili á sviði hreyfingar hafi yfirumsjón með innleiðingu YAP í leikskólum, grunnskólum eða hjá íþróttafélögum. YAP verkefnið var þróað af tveimur háskólum og hver æfing er skipulögð í ákveðnum tilgangi. Sama gildir um hreyfiþjálfun og aðra þjálfun, markvissar æfingar og árangursmiðuð nálgun í umsjón fagfólks getur skilað mikilvægum árangri. Í leikskólanum Skógarási, hefur YAP verkefnið reynst vera verkfærakista fyrir leikskólakennara, sem hafa tengt námsefni við YAP verkefnið og byggt upp nám í leikjaformi á í samstarfi við íþróttafræðing. Það var mjög ánægjulegt að sjá að Ingunn Ríkharðsdóttir, leikskólastjóri heilsuleikskólans Garðasels hefur nýtt YAP sem tækifæri til að efla enn frekar öflugt starf leikskólans. Það er von Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi að sem flestir leikskólar sjái ástæðu til að kynna sér YAP verkefnið. Börn með sérþarfir/frávik eru áhættuhópur þegar kemur að virku íþróttastarfi. Vonast er til þess að aðstandendur sem fylgjast með jákvæðum áhrifum markvissrar hreyfiþjálfunar ungra barna fylgi börnum sínum eftir í áframhaldandi hreyfiþjálfun þegar leikskólaárum lýkur. Til hamingju með frábært starf á Akranesi starfsfólk leikskólans Garðasels