Svona erum við

Heilsuleikskólinn Garðasel

Leikskólinn  er þriggja deilda og var stofnaður 1. september 1991

Heilsuleikskólinn Garðasel býður börnum upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín í leik og starfi á sínum forsendum. Áhersla er lögð á heilbrigðan lífsstíl sem ætti að fylgja börnunum inn í fullorðinsárin.

Skólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur en meginmarkið hennar er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á hreyfingu, næringu og sköpun í leik.  

Í Heilsustefnunni er markvisst unnið með hreyfingu og sköpun á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir í hreyfingu þar sem viðfangsefnin byggja á leik og gleði. Í hreyfistundum er stuðst við aldursmiðaða færniþætti Heilsubókar barnsins án þess þó að æfa börn sérstaklega í afmarkaðri færni.

Heilsuleikskólar kappkosta að auka velferð barna með góðri næringu og byggja matseðlar á næringarstefnu heilsuleikskólanna. Næringarstefnan er unnin af næringarfræðingi og lýðheilsufræðingi og fylgir hún opinberun ráðleggingum um mataræð. Lögð er áhersla á  fjölbreyttan heimilismat og að vinna mat sem mest frá grunni. Börn með fæðuóþol / fæðuofnæmi fá mat sem hentar þeim hverju sinni og eins líkan því sem í boði er hverju sinni.

Í Garðaseli eru skipulagðar hreyfistundir einu sinni í viku fyrir öll börn skólans. Lón og Holt eru á Skála og í Glaumbæ með fjölbreytt viðfangsefni sem hæfa þeirra aldri og taka mið af aldurstengdum færniviðmiðum Heilsubókar.

Elstu hóparnir tveir fara í íþróttahúsið að Jaðarsbökkum á föstudögum og þar takast þau á við ýmis verkefni í leik og gleði um leið og þau efla hreyfifærni sína og samskipti.

Elsti árgangurinn fær vikulangt sundnámskeið í júní.

Tvo heilsuskokk eru á skólaárinu ; í september og maí. Allir þátttakendur fá verðlaunapening í lokin og holla næringu.

Íþróttadagar eru í júní en þá er skipulögð fjölbreytt dagskrá íþróttum og leikjum.