Flutt í nýja Garðasel

Þá er öll starfsemi Garðasels komin í nýja skólann við Asparskóga og fögnum við þessu stóra og mikilvæga skrefi í Garðaseli og í leikskólastarfsemi á Akranesi. Fimm deildir eru í skólanum, fjórar í deildareiningum og elsti hópurinn á Skála á meðan beðið er eftir að tvær deildir klárist.

Enn erum við í kössum hér og þar, hurðir vantar á efri hæðina og unnið er samhliða iðnaðarmönnum við að ljúka ótalmörgum verkum. Við fengum fjóra stráka úr 10. bekk í Grundaskóla sem settu hér saman Ikea-skápa og stóla og munaði mikið um þá aðstoð. Margt er ógert og við gefum okkur tíma næstu vikur til að koma okkur fyrir en starfið með börnunum er komið í fullan gang.

Ráðgert er að vígja skólann formlega þegar allt er tilbúið, úti og inni, og bjóða íbúum á Akranesi að koma og skoða þetta glæsilega og metnaðarfulla mannvirki.