Fara í efni

Af hverju er barnið mitt ekki í afmæli ?

Afmæli eru oftast stærsti viðburður í lífi lítilla barna og tilhlökkun þeirra fyrir deginum sínum mikil. Eftirvæntingin skín úr augum þeirra í leikskólanum, sérstaklega á elstu deild, og þau ræða spennt við krakkana um afmælið sitt, hvað þau ætla að bjóða upp á og síðan hver má koma í afmælið. Það er því mikilvægt að foreldrar aðstoði börn sín við þennan viðburð og minni sig á að fátt er erfiðara fyrir börn en að vera sett í þann hóp að fá ekki afmælisboð. Af hverju er mér ekki boðið í afmæli ? því er erfitt að svara og um leið er mjög erfitt að finna svar sem getur gefið barni gleði sína að nýju og jafnvel foreldrum líka. Stundum er barnið sem hefur hægt um sig og tekur lítið rými sem verður eftir af því að afmælisbarnið man ekki eftir því. Eða fjöruga barninu er boðið því allir muna eftir því en börnin eru kannski ekki leikfélagar eða vinir. Kæru foreldrar, hjálpumst að við að gera afmælisdaga barna ykkar að gleðidögum, ræðum saman um hvernig hægt er að halda vel utan um barnahópinn og koma í veg fyrir að lítil hjörtu verði svona döpur.
Leikskólinn er tilbúinn til að aðstoða ykkur ef þið þurfið eða viljið. Skiljanlega þarf að takmarka fjölda gesta en það má gera með ýmsum hætti.